Erlent

Trump heimsækir Camp David í fyrsta sinn

Atli Ísleifsson skrifar
Trump-fjölskyldan fyrr í dag við Camp David.
Trump-fjölskyldan fyrr í dag við Camp David. Vísir/afp
Donald Trump Bandaríkjaforseti heimsækir um helgina Camp David, sveitabústað forseta Bandaríkjanna, í fyrsta sinn. Trump hefur áður lýst yfir takmörkuðum áhuga á að nýta sér bústaðinn til að komast í burtu og hlaða batteríin.

Þannig hefur Trump lýst staðnum sem „mjög sveitalegum“ og sagt að einungis væri hægt að þola hálftíma vist á staðnum. Trump hefur það sem af er forsetatíðar sinnar fyrst og fremst nýtt lausar stundir með því að fljúga til Flórída til að spila golf.

Camp David er að finna í hinum afskekktu Catoctin-fjöllum í Maryland, stuttri þyrluferð frá höfuðborginni Washington.

Trump mætti til Camp David fyrr í dag ásamt forsetafrúnni Melaníu og syni þeirra, Barron.

Bandaríkjaforsetar hafa síðustu sjö áratugina sótt til Camp David. Þannig funduðu Franklin Delano Roosevelt forseti og Winston Churcill, forsætisráðherra Bretlands, þar árið 1943 þar sem þeir báru saman bækur sínar í aðdraganda innrásar bandamanna inn í Normandí.

Jimmy Carter forseti bauð leiðtogum Egypta og Ísraela til Camp David til friðarviðræðna og brúðkaup Dorothy, dóttur George H.W. Bush forseta, fór þar fram.

Barack Obama forseti fór 39 sinnum til Camp David á forsetaárum sínum en bauð erlendum þjóðarleiðtogum einungis tvisvar sinnum þangað – leiðtogum á G8-fundinum 2012 og svo leiðtogum ríkja við Persaflóa árið 2015 til að ræða kjarnorkusamninginn við Írani.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×