Íslenski boltinn

Áttunda umferðin hefst í dag: Fyrsti leikur Vals og KA í efstu deild í 14 ár

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Sigurður Egill Lárusson er kominn með fjögur mörk í sumar.
Sigurður Egill Lárusson er kominn með fjögur mörk í sumar. vísir/eyþór
Áttunda umferð Pepsi-deildar karla hefst í dag með tveimur leikjum.

Tvö efstu lið deildarinnar verða bæði í eldlínunni. Topplið Vals fær KA í heimsókn á Hlíðarenda og í hinum leik dagsins sækir ÍBV Grindavík heim.

Valur og KA hafa ekki mæst í efstu deild síðan 2003.

Valur vann fyrri leikinn fyrir 14 árum, 1-2, þökk sé sigurmarki Sigurbjörns Hreiðarssonar, núverandi aðstoðarþjálfara Vals. Seinni leiknum lyktaði með 2-2 jafntefli þar sem tvö rauð spjöld fóru á loft. Bjarni Ólafur Eiríksson spilaði báða leikina gegn KA 2003 en hann er sá eini sem er eftir í Valsliðinu síðan þá.

Valur situr sem áður sagði í efsta sæti Pepsi-deildarinnar með 16 stig. KA er í 4. sætinu með 12 stig.

Andri Rúnar hefur skorað í fjórum deildarleikjum í röð.vísir/andri marinó
Spútniklið Grindavíkur hefur fengið 10 stig af 12 mögulegum í síðustu fjórum leikjum sínum og hefur komið sér vel fyrir í 2. sætinu með 14 stig.

Grindavík hefur innan sinna raða markahæsta leikmann deildarinnar, Andra Rúnar Bjarnason, sem hefur skorað sjö af 11 mörkum liðsins.

Eyjamenn hafa verið heitir og kaldir til skiptis í sumar. Þeir voru heitir í síðustu umferð þar sem þeir unnu 3-1 sigur á KR.

ÍBV endurheimtir Hafstein Briem úr leikbanni en hann hefur þegar fengið tvö rauð spjöld á tímabilinu.

Báðir leikir dagsins hefjast klukkan 17:00 og verður leikur Vals og KA sýndur beint á Stöð 2 Sport HD.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×