Golden State hélt Cleveland í aðeins 34,9% skotnýtingu í leiknum og þá tapaði Cleveland boltanum 20 sinnum en Golden State einungis fjórum sinnum.
Kevin Durant átti frábæran leik í liði Golden State. Hann skoraði 38 stig, tók átta fráköst og gaf átta stoðsendingar. Alls gáfu leikmenn Golden State 31 stoðsendingu í leiknum en leikmenn Cleveland aðeins 15.
Stephen Curry var einnig öflugur með 28 stig og 10 stoðsendingar. Klay Thompson og Draymond Green fundu sig hins vegar ekki í sókninni og hittu aðeins úr samtals sex af þeim 28 skotum sem þeir tóku í leiknum.
LeBron James stóð upp úr í liði Cleveland með 28 stig, 15 fráköst og átta stoðsendingar. Kyrie Irving skoraði 24 stig og Kevin Love var með 15 stig og 21 frákast.
Annar leikur liðanna fer fram á sunnudaginn.