Verulegar efasemdir eru um frumvarpið á meðal stjórnarþingmanna, þá helst þann rúma refsiramma sem gengið er út frá.
„Ég er búinn að vera tvístígandi í þessu máli. Mér finnst líklegt að ég myndi styðja það að tálmun væri óheimil með lögum en síðan set ég óneitanlega spurningarmerki við þetta refsiúrræði sem er fimm ára fangelsi,“ segir Pawel Bartoszek, þingmaður Viðreisnar.

Frumvarpið átti að koma til umræðu á Alþingi á þriðjudag en dagskrá riðlaðist til, meðal annars vegna átaka í liðnum um fundarstjórn forseta.
Brynjar vill meina að þann glugga hafi stjórnarandstaðan notfært sér til að koma í veg fyrir að frumvarpið kæmist á dagskrá og þaðan inn í nefnd. „Það er málþóf gegn frumvarpinu, sem er svolítið sérstakt. Þau eru bara mjög á móti þessu og óttast að það sé nógu mikill stuðningur til að afgreiða þetta.“

Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, segir af og frá að stjórnarandstaðan stundi málþóf gegn frumvarpinu. „Ég held að við verðum bara að vísa þessu til föðurhúsanna.“
Katrín segist þó engar áhyggjur hafa af afdrifum málsins. Aðeins sjö þingfundardagar séu eftir og litlar líkur á að málið fari í gegn á þeim skamma tíma. „Það er ekkert launungarmál að ég tel að það að hneppa foreldra sem ekki virða umgengnisrétt í fangelsi sé ekki til þess fallið að leysa mál. En það er óvarlegt hjá þessum þingmanni að tala um málþóf því hér var um að ræða mjög hefðbundna umræðu í gær.“