Íslenski boltinn

Arnar í einkaviðtali við Gumma Ben: „Kannski er ég kjáni en ég trúði ekki að þetta væri að gerast“

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Arnar Grétarsson, fyrrverandi þjálfari Breiðabliks, hélt að hann væri að fara að hitta nýjan leikmann í félagsheimili Breiðabliks þegar honum var sagt upp á þriðjudaginn.

Þetta kemur fram í einkaviðtali Guðmundar Benediktssonar í viðtalsþættinum 1á1 sem sýndur verður á föstudagskvöldið en 1á1 er á dagskrá á hverjum föstudegi á eftir Teignum á Stöð 2 Sport HD.

Brot úr viðtalinu má sjá í spilaranum hér að ofan.

Blikarnir voru búnir að tapa tveimur fyrstu leikjum tímabilsins en gengi liðsins var ekki gott undir lok síðasta sumars og hefur ekki verið merkilegt í vetur og vor. Uppsögnin kom Arnari samt sem áður verulega á óvart.

Varnarleikur Breiðabliks var ekki upp á marga fiska í fyrstu umferðinni og voru menn þar á bæ því búnir að fá sterkan varnarmann að láni frá Norwich. Arnar hélt að hann væri að fara að hitta strákinn þegar hann var kallaður á fund.

Missti hökuna í gólfið

„Ég er í sambandi við Snorra sem er formaður meistaraflokksráðs og þá kemur í ljós að það er verið að binda síðasta hnútinn á þetta og að öllum líkindum verður strákurinn með á æfingu,“ segir Arnar við Gumma Ben í 1á1.

„Í framhaldi af því biður hann mig um að mæta í græna herbergið í Smáranum. Ég hélt að ég væri bara að fara að hitta leikmanninn þar sem það kom nú maður með honum. Bara aðeins aðeins að fara yfir stöðuna. Ekkert annað,“ segir Arnar en þá var verið að segja honum upp.

„Ég hefði kannski átt að sjá þetta en maður er kannski kjáni. Ég held að ég hafi misst kjálkann niður og trúði því ekki að þetta væri að gerast. Ég var nú svo sem ekki lengi þarna inni en ég spurði af hverju það væri verið að taka þessa ákvörðun á þessum tímapunkti. Svarið var bara slæmt gengi.“

Varstu reiður? „Ég var hissa,“ segir Arnar Grétarsson.

Margt áhugavert kemur fram í viðtalinu við Arnar sem er á dagskrá á föstudagskvöldið klukkan 22.00 á Stöð 2 Sport HD.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×