Matt Barnes, leikmaður Golden State Warriors, vildi miklu frekar mæta Los Angeles Clippers í undanúrslitum Vesturdeildarinnar í NBA en Utah Jazz.
Ástæðan tengist körfubolta ekki neitt heldur næturlífinu á þessum stöðum. Að sögn Barnes er öllu skemmtilegra að djamma í Los Angeles en Salt Lake City.
„Það er ekki hægt að bera þetta tvennt saman,“ sagði Barnes. „Það er ekkert næturlíf í Utah. Sem leikmaður viltu aðeins geta slett úr klaufunum þótt aðalatriðið sé auðvitað að vinna leiki.“
Barnes lék áður með Clippers og vildi líka fá tækifæri til að vinna sitt gamla lið.
„Ég vil fara til Los Angeles því ég vil vinna Clippers. Það er gamla liðið mitt og börnin mín búa þar. En hvað næturlífið varðar er ekki hægt að bera saman Utah og Los Angeles,“ sagði Barnes hreinskilinn.
Einvígi Golden State og Utah hefst í nótt þegar liðin mætast í Oracle Arena.
Vildi frekar mæta Clippers: Ekkert hægt að djamma í Salt Lake City

Tengdar fréttir

Utah sló Clippers út | Boston komið yfir
Utah Jazz tryggði sér í kvöld sæti í undanúrslitum Vesturdeildarinnar í NBA með sigri á Los Angeles Clippers, 91-104, í oddaleik. Utah mætir Golden State Warriors í undanúrslitunum.