Sport

Sharapova segist yfir það hafin að svara Bouchard sem kallaði hana svindlara

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Maria Sharapova er mætt aftur til að spila tennis en ekki rífast.
Maria Sharapova er mætt aftur til að spila tennis en ekki rífast. vísir/getty
Rússneska tenniskonan Maria Sharapova sneri aftur á völlinn í gær eftir fimmtán mánaða lyfjabann sitt og vann Ekaterinu Makarovu í 16 manna úrslitum Stuttgart-mótsins sem er hluti af WTA-mótaröðinni.

Sharapova þurfti ekki að byrja á botninum þegar hún sneri aftur eins og flestir aðrir en hún fékk boðskort eða svokallað „Wildcard“-sæti á mótið. Hún hefur einnig fengið boð á fleiri mót í næsta mánuði.

Þetta hefur farið illa í nokkrar aðrar tenniskonur en þeim finnst ósanngjarnt að geti komið svona auðveldlega til baka.

Sú kanadíska Eugenie Bouchard gekk töluvert lengra í gagnrýni sinni í garð Sharapovu en hún lét hafa eftir sér: „Hún er svindlari og ég er á því að svindlarar eigi ekki að fá að spila aftur. Alveg sama í hvaða íþrótt það er. Svindlarar eiga að vera í banni.“

Aðspurð út í ummæli Bouchard á blaðamannafundi í Stuttgart í gær sagðist Sharapova vera yfir það hafin að svara svona gagnrýni og bætti við: „Ég horfi bara fram á veginn,“ sagði Maria Sharapova en BBC greinir frá.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×