Rússneska tenniskonan Maria Sharapova sneri aftur á völlinn í gær eftir fimmtán mánaða lyfjabann sitt og vann Ekaterinu Makarovu í 16 manna úrslitum Stuttgart-mótsins sem er hluti af WTA-mótaröðinni.
Sharapova þurfti ekki að byrja á botninum þegar hún sneri aftur eins og flestir aðrir en hún fékk boðskort eða svokallað „Wildcard“-sæti á mótið. Hún hefur einnig fengið boð á fleiri mót í næsta mánuði.
Þetta hefur farið illa í nokkrar aðrar tenniskonur en þeim finnst ósanngjarnt að geti komið svona auðveldlega til baka.
Sú kanadíska Eugenie Bouchard gekk töluvert lengra í gagnrýni sinni í garð Sharapovu en hún lét hafa eftir sér: „Hún er svindlari og ég er á því að svindlarar eigi ekki að fá að spila aftur. Alveg sama í hvaða íþrótt það er. Svindlarar eiga að vera í banni.“
Aðspurð út í ummæli Bouchard á blaðamannafundi í Stuttgart í gær sagðist Sharapova vera yfir það hafin að svara svona gagnrýni og bætti við: „Ég horfi bara fram á veginn,“ sagði Maria Sharapova en BBC greinir frá.
