Stjarnan vann 3-1 sigur á Þrótti í fjórða riðli A-deildar Lengjubikars karla í fótbolta en leikurinn fór fram í Kórnum í kvöld.
Hilmar Árni Halldórsson, Baldur Sigurðsson og varamaðurinn Kristófer Konráðsson skoruðu mörk Stjörnuliðsins en mark Þróttara var sjálfsmark.
Stjarnan hafði mikla yfirburði stærsta hluta leiksins og Stjörnuliðið var komið tveimur mörkum yfir eftir aðeins tuttugu mínútna leik.
Þetta var fyrsti sigurinn og fyrstu mörkin hjá Stjörnumönnum í Lengjubikarnum í ár en liðið gerði markalaust jafntefli í fyrsta leik á móti Breiðabliki. Þróttar unnu 3-2 sigur á Fram í fyrsta leik en náðu ekki að fylgja þeim sigri eftir á móti sterku Stjörnuliði í kvöld.
Hilmar Árni Halldórsson kom Stjörnunni í 1-0 á 11. mínútu með skoti úr teignum eftir stoðsendingu frá Jósefi Kristni Jósefssyni en Baldur Sigurðsson átti einnig þátt í undirbúningnum.
Baldur Sigurðsson skoraði síðan annað markið aðeins átta mínútum síðar með skalla úr markteignum eftir aukaspyrnu frá Hilmari Árna Halldórssyni.
Þannig var staðan í hálfleik og þangað til á 77. mínútu þegar hinn nítján ára gamli Kristófer Konráðsson skoraði þriðja markið með góðu skoti úr teignum eftir stoðsendingu frá Guðjóni Baldvinssyni.
Þróttarar minnkuðu muninn þegar Daníel Laxdal skallaði boltann í eigið mark eftir aukaspyrnu.
