Eftir erfiða byrjun er Anthony Odunsi, erlendur leikmaður Stjörnunnar, allur að koma til.
Odunsi skoraði 20 stig í sigrinum á Þór Þ. á fimmtudagskvöldið og virðist vera búinn að vinna sérfræðinga Domino's Körfuboltakvölds á sitt band.
„Þegar ég horfi á þennan gæja er eins og Alli Óskars sé mættur aftur. Hann sækir snertingu og keyrir alltaf á helvítis vörnina. Grjótharður,“ sagði Jón Halldór Eðvaldsson.
Justin Shouse, leikstjórnandi Stjörnunnar, er enn frá vegna höfuðmeiðsla. Strákarnir í Körfuboltakvöldi eru á því að fjarvera Justins hafi hjálpað Odunsi að komast inn í leik Stjörnunnar.
„Það er ekkert hægt að viðurkenna þetta, en þetta er hins vegar gott fyrir hann til að komast inn í kerfið hjá þeim,“ sagði Jón Halldór.
Fannar Ólafsson er hrifinn af samvinnu Odunsi og Hlyns Bæringssonar.
„Það sást hvað þeir tengdust vel. Hlynur var á góðum stað og hann fann hann eða Hlynur tók sóknarfráköst eftir erfitt skot sem Odunsi tók,“ sagði Fannar.
Innslagið í heild sinni má sjá í spilaranum hér að ofan.
