Eigendur Brúneggja eiga í viðræðum við „þrjá aðskilda hópa fjárfesta“ um að þeir kaupi fyrirtækið. Stefnt er að því að niðurstaða fáist í viðræðurnar fyrir lok mánaðarins.
Þetta fékkst staðfest hjá verðbréfafyrirtækinu Arev hf. sem hefur séð um söluna á fyrirtækinu. Í gær kom fram að eigendur Múlakaffis ehf. og Dalsáróss ehf. hefðu fallið frá kaupum á Brúneggjum. Formlegt söluferli hefði hafist 12. desember og kaupsamningur við áðurnefnd félög undirritaður 28. desember.

„Fyrirtækið er enn til sölu og eigendur eru í viðræðum við aðila sem hafa áhuga á að kaupa fyrirtækið. Annars eru engar nýjar fréttir,“ segir Kristinn Gylfi Jónsson, framkvæmdastjóri og annar eigenda Brúneggja, í samtali við Vísi.
Sala á vörum Brúneggja hrundi í kjölfar fjölmiðlaumfjöllunar um slæman aðbúnað varphænsna fyrirtækisins. Allir stærstu viðskiptavinir þess, þar á meðal verslanir á borð við Bónus, Krónuna og Nettó, tóku brúneggin úr hillum og sagði Kristinn í samtali við Fréttablaðið þann 19. janúar lítið hafa breyst í sölumálum fyrirtækisins. Einhver egg hefðu selst vikurnar á undan.
Brúnegg eru í eigu Geysis-fjárfestingarfélags ehf. og Bala ehf. og eiga bæði félögin helmingshlut. Kristinn Gylfi er eigandi Geysis en bróðir hans Björn Jónsson á Bala.