Alþingi kemur saman í dag í fyrsta sinn eftir að ný ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar Framtíðar var mynduð. Stefnuræða forsætisráðherra verður í kvöld og nýr þingforseti verður kjörinn á þingfundi sem hefst klukkan 13:30.
Fastlega má gera ráð fyrir því að Unnur Brá Konráðsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, verði kosin forseti Alþingis en hún hefur verið tilnefnd af stjórnarflokkunum.
Þá hafa þingflokksformenn allra flokka fundað undanfarna daga til að freista þess að ná saman um skipan fastanefnda þingsins. Vonir stóðu til að þingflokksformennirnir myndu allir standa saman að tillögu um skipan nefnda og nefndarformanna. Þær vonir runnu út í sandinn í dag og ekkert samkomulag liggur fyrir.

Birgir Ármannsson, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, segir að stjórnarmeirihlutin þurfi ekki endilega að beita meirihlutavaldi sínu til að taka til sín formennsku í öllum nefndum.
„Við höfum í samtölum okkar við stjórnarandstöðuna sagt að við höfum ekkert endilega áhuga á því að nýta meirihlutakraftinn til hins ýtrasta,“ segir Birgir. „Þannig að stjórnarandstaðan veit að þarna er eitthvað svigrúm. Við höfum sagt þeim svo að jafnvel þó við gætum með meirihluta og atkvæðagreiðslu sótt öll formennskusæti og varaformennskusæti í nefndum erum við ekki endilega að sækjast á eftir því. Boltinn að því leiti er hjá stjórnarandstöðunni.“
Hann segir að ef að stjórnarndstaðan vilji ekki nein formennskusæti í nefndum væri komin upp svipuð staða og árið 2011.
„Ég vona að störf þingsins byrji í friðsamlegari anda heldur en þá,“ segir hann.
Þá segir Birgir að samtal stjórnar og stjórnarandstöðu sé gott varðandi skipan alþjóðanefnda sem einnig gegna veigamiklu hlutverki.