Örvandi lyf sem heitir Methylhexanamine fannst í lyfsýni Nesta Carter en það var eitt af 454 frosnum sýnum frá leikunum 2008 í Peking sem voru endurskoðuð með nýjustu tækni á síðustu vikum og mánuðum.
Auk Carter og Bolt voru í sveitinni þeir Asafa Powell og Michael Frater en þeir komu fyrstir í mark á 37,10 sekúndum og settu heimsmet. Sveit Trínidad og Tóbagó hafnaði í öðru sæti en fær nú gullið frá Jamaíku.
Nesta Carter hefur í mörg ár verið lykilmaður í 4x100 metra sveit Jamaíka en hann fékk einnig gull í greininni á Ólympíuleikunum í Lundúnum 2012 og á HM 2011, 2013 og 2015. Nú er spurning hvort önnur sýni hans verði skoðuð.
Usain Bolt vann 100 og 200 metra hlaupin auk þess að vera í sigursveit Jamaíku í 4x100 metra hlaupi á Ólympíuleikunum í Peking 2008, Lundúnum 2012 og nú síðast í Ríó 2016. Þetta var kallað þreföld þrenna Bolts en hún er nú að engu orðin þar sem gullverðlaunin sem einu sinni voru níu eru orðin átta frá og með deginum í dag.