Varnarjaxlinn Guðmundur Hólmar Helgason var með umbúðir á ökklanum er landsliðið hitti fjölmiðlamenn í dag en hann meiddist í upphitun fyrir leikinn gegn Angóla.
„Staðan er þokkaleg á mér. Ég snéri mig í upphitun. Það var einhver bleyta fyrir framan ritaraborðið sem varð þess valdandi að ég snéri mig,“ segir Guðmundur Hólmar um þetta óheppilega slys en ökklinn var strax kældur og svo fékk hann að hvíla leikinn.
„Ég verð klár í leikinn. Við skoðum meiðslin síðar í dag og ég mun reyna að æfa á eftir. Við sjáum hvað setur með það.“
Vörn Íslands fær mjög verðugt verkefni gegn Makedóníu á morgun enda spila Makedóníumenn æði oft með sjö menn í sókninni.
„Það er mjög skemmtileg áskorun sem og að spila gegn Lazarov. Maður hefur horft á marga leiki Íslands gegn Makedóníu í gegnum tíðina þar sem Lazarov var að spila. Það verður geggjað að fá að takast á við þetta verkefni,“ segir Guðmundur ákveðinn en það verður líka verðugt verkefni að glíma við hinn þunga Stoilov á línunni.
„Það er þungt í honum pundið og hann rífur mikið til sín. Þetta verður svakaleg barátta. Við verðum að vera mjög hreyfanlegir í þessum leik og nýta okkar tækifæri.“
Ekki missa af neinu sem gerist á HM í Frakklandi. Vísir er með öflugt fréttateymi á mótinu sem færir ykkur allar nýjustu fréttirnar af strákunum okkar. Fylgdu okkur á Facebook, Twitter og Snapchat (sport365).
