Sænska landsliðið í handbolta, undir stjórn Kristjáns Andréssonar, kom sterkt til baka eftir tap gegn Danmörku í síðustu umferð riðlakeppni HM 2017 og valtaði yfir Katar í kvöld, 36-25.
Svíar voru betri frá upphafi til enda en þeir voru sjö mörkum yfir í hálfleik, 19-12, og juku svo forskotið í þeim síðari. Silfurliðið frá HM 2015 átti ekki möguleika í Svíana í kvöld.
Hornamaðurinn Niclas Ekberg fór á kostum annan leikinn í röð en hann skoraði níu mörk úr tíu skotum. Albin Lagergren skoraði sjö mörk fyrir Svía og Jerry Tollbring sex mörk.
Sigurinn tryggði Guðmundi Guðmundssyni og lærisveinum hans í Ólympíumeistaraliði Dana sigur í D-riðlinum en með sigri hefðu Katarbúar fengið úrslitaleik um efsta sætið á móti Danmörku á föstudaginn.
Svíar eru með sex stig eins og Egyptar og eiga úrslitaleik um annað sætið í lokaumferðinni á móti Egyptalandi.
Svíarnir hans Kristjáns rúlluðu yfir Katar og tryggðu Guðmundi sigur í riðlinum
Tómas Þór Þórðarson skrifar