Formenn Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar munu samþykkja stjórnarsáttmála flokkanna þriggja í kvöld eða í síðasta lagi í fyrramálið. Stofnanir flokkanna munu koma saman annað kvöld til að samþykkja þátttöku flokkanna í ríkisstjórn en gert er ráð fyrir að hún verði kynnt á þriðjudag.
Í gær voru 10 vikur frá því að Íslendingar gengu til Alþingiskosninga. Síðan þá hafa þrír formenn stjórnmálaflokka fengið umboð til stjórnarmyndunar og daglega hefur í fjölmiðlum verið rætt um að hinir og þessar hafi átt í formlegum eða óformlegum stjórnarmyndunarviðræðum.
En nú sér fyrir endan á þessari stjórnarkreppu eins og sumir stjórnmálafræðingar hafa orðað það. Þingflokkur Viðreisnar kom saman til fundar eftir hádegi í dag til að ræða þær athugasemdir sem þingflokkur Sjálfstæðisflokks gerði við drög að stjórnarsáttmála flokkanna í gær.
Samkvæmt upplýsingum fréttastofu er gert ráð fyrir að forystufólk flokkanna samþykki stjórnarsáttmálann í endanlegri mynd í kvöld, en það gæti þó gerst í fyrramálið.
Í þeim kafla stjórnarsáttmálans er snýr að landbúnaðarmálum kemur fram að búvörusamningar verði endurskoðaður árið 2019 en það er í samræmi við þær breytingar sem Alþingi samþykkti á samningunum í fyrra.
Þá liggur fyrir að ráðist verður í endurskoðun á peningastefnunni og átak gert í uppbyggingu innviða. Þingmenn flokkanna þriggja hafa í samtölum við fréttastofu sagt að ekki verði að finna neinar meiriháttar kerfisbreytingar í sáttmálanum. Agi í ríkisfjármálum, stöðugleiki og uppbygging innviða séu ákveðið grunnstef í sáttmálanum.
Áður en ný ríkisstjórn verður kynnt þurfa stofnanir flokkanna þriggja að samþykkja þátttöku flokkanna í ríkisstjórn. Flokksráð Sjálfstæðisflokksins hefur verið boðað til fundar annað kvöld í Valhöll og þá mun ráðgjafaráð Viðreisnar og stjórn Bjartrar framtíðar koma saman á sama tíma.
Líkt og fram kom í kvöldfréttum Stöðvar 2 í gær verður ný ríkisstjórn flokkanna kynnt á þriðjudag eða miðvikudag, en líklegra er talið að það verði á þriðjudag.
Stofnanir flokkanna þriggja koma saman annað kvöld
Tengdar fréttir

Þjóðaratkvæði um ESB í stjórnarsáttmálanum
Stóru deilumálin í viðræðum Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar hafa verið útkljáð. Stjórnarsáttmáli verður skrifaður í vikunni. MS verður sett undir samkeppnislög, tollar lækkaðir á hvítt kjöt og kosið um ESB

Óttarr brattur eftir níu vikur í stjórnarmyndunarviðræðum: „Það ættu allir að prófa þetta“
Óttarr Proppé hefur staðið í stjórnarmyndunarviðræðum í rúma tvo mánuði, eða samtals níu vikur.

Ljóst að þriggja flokka ríkisstjórn verður að veruleika
Formaður Sjálfstæðisflokksins segir ljóst að ríkisstjórnarsamstarf flokksins við Viðreisn og Bjarta framtíð verði að veruleika