Guðmundur Steinn Hafsteinsson hefur skrifað undir samning við Víking Ó. og mun leika með liðinu í Pepsi-deildinni á næsta tímabili.
Guðmundur þekkir vel til hjá Víkingi en hann lék með liðinu á árunum 2011-13 og skoraði 35 mörk í 79 leikjum.
Guðmundur er uppalinn hjá Val. Hann hefur einnig leikið með HK, Fram og ÍBV, auk þess sem hann lék um tíma með Nötedden í Noregi.
Guðmundur, sem er 27 ára, hefur alls leikið 75 leiki í efstu deild á Íslandi og skorað 13 mörk.
Víkingur endaði í 10. sæti Pepsi-deildarinnar á síðasta tímabili og leikur því áfram í deild þeirra bestu á næsta tímabili.
