Skoðun

Takk fyrir, borgarstjórn

Ellert B. Schram skrifar
Yfirleitt er það nú þannig að maður drepur niður penna og tjáir sig opinberlega, þegar manni mislíkar eða mótmælir einhverju sem er að gerast samfélaginu. Maður gleymir að láta í sér heyra þegar vel er gert. Þegar ástæða er til að þakka fyrir sig og sína. Þegar ákvarðanir eru teknar sem manni líkar við.

Í þetta skiptið ætla ég að breyta út frá vananum og hrósa stjórnvöldum. Stjórnvöldum í Reykjavíkurborg. Sem varða eldri borgara og aldursvæna höfuðborg.

Fyrir rúmlega ári var mér falið að stýra hópi sem hafði það verkefni að leggja fram tillögur um heilsueflingu eldri borgara og úrræði þar að lútandi. Við lögðum fram tuttugu og sex tillögur fyrir borgarstjórn, sem innihéldu lagfæringar og aðgerðir um heilsu og hreyfingu fullorðinna. Þar með lauk mínum afskiptum af málinu. Innst inni datt mér það helst í hug að þessar tillögur dagaði uppi einhvers staðar í kerfinu.

En viti menn, nú hef ég verið kallaður aftur til og mér kynnt það starf sem síðan hefur farið fram á vegum borgarstjórnar til útfærslu á tillögunum tuttugu og sex. Og það sem gert hefur verið eða stendur til að gera. Það er of langt mál að telja upp og rekja þau verkefni sem stefna í átt til aukinnar þjónustu fyrir eldri borgara á þessu sviði. Það verður gert úr ráðhúsinu. Hagræðingar og aðbúnaður sem snýr að hreyfingu, mataræði, þjónustu, eflingu og valkostum margvíslegum er og verður í boði af hálfu borgarinnar. Ég hef lagt áherslu á að framhaldið og viðbrögð borgarinnar verði rækilega kynnt. Auglýst. Tilkynnt. Upplýst með aðgengilegum hætti. Og það stendur til.

Takk fyrir þetta, Dagur, og þið öll í lýðheilsunni, velferðinni, íþrótta- og tómstundasviði og fólkið sem annast þjónustu aldraðra í hverfum borgarinnar. Í aldursvænni höfuðborg. Hér verið að tala um alvörumál, þjónustu og hvatningu, til okkar, eldri borgara, um að búa svo um, að eldra fólk njóti lífsins, sé áfram virkt og glatt og heilsugott. Um þetta snýst málið. Elli er eitt, aldur er annað. Í byrjun næsta árs munu útfærslur á heilsuvæðingu eldra fólks verða kynntar og nýttar. Sem vonandi bæta og lengja líf eldri borgara, kynslóð eftir kynslóð.

Gleðileg jól.

 

Þessi grein birtist fyrst í Fréttablaðinu.




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×