Fótbolti

Sjáðu klefann hjá Messi og félögum með 360 gráðu myndavél | Myndavél

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lionel Messi fagnar hér marki með félögum sínum í Barcelona-liðinu.
Lionel Messi fagnar hér marki með félögum sínum í Barcelona-liðinu. Vísir/Getty
Eiður Smári Guðjohnsen fékk að kynnast Nývangi vel á tíma sínum hjá Barcelona en bíður félagið gestum á fésbókarsíðu sinni til að skoða sig vel um á vellinum.

Barcelona er og verður eitt besta fótboltafélag heims og þar spila snillingar eins og Lionel Messi, Andrés Iniesta, Neymar og Luis Suarez svo einhverjir séu nefndir.

Í tilefni jólahátíðarinnar ákváðu þeir sem stýra samfélagsmiðlum Barcelona að bjóða stuðningsmönnum sínum og öðrum áhugasömum upp á smá jólatúr um Camp Nou.

Barcelona spilar aldrei betur en á heimavelli sínum á Nývangi og leikvangurinn er einn sá stærsti og frægasti í fótboltaheiminum. Börsungar eru líka stoltir af heimavelli sínum.  Hann tekur rétt tæplega hundrað þúsund manns og það er vel mætt á leiki liðsins.

Myndatökumaður Barcelona er vopnaður sérstakri 360 gráðu myndavél þannig að þeir sem horfa á myndbandið geta snúið sjónarhorni sínu í allar áttir.

Myndbandið sýnir leikvöllinn, varamannabekkinn, leikmannagöngin frægu á Nývangi og endar síðan á því að fara inn í búningsklefann hjá Barcelona.

Þetta eru staðir þar sem hinn almenni áhugamaður hefur ekki tækifæri til að skoða hvað þá að „horfa í kringum sig“ eins og í þessum skemmtilega og áhugaverða myndbandi sem má finna hér fyrir neðan.  




Fleiri fréttir

Sjá meira


×