Hitinn var fjögur til átta stig á Íslandi í dag og enn hærri tölur eru á veðurkorti morgundagsins.
Veðurfræðingar segja aldrei hafa mælst hærri meðalhiti frá því mælingar hófust um miðbik nítjándu aldar.
Nú þegar tvær vikur eru til jóla er til að mynda autt í Bláfjöllum, húsflugur hafa vaknað til lífsins og suða inni á heimilum og grasið er víða enn fagurgrænt.
Og þau eru misjöfn desemberverkin en hestamenn í Spretti nýta aðventuna til að gróðursetja tré.
„Maður er úti á peysunni í tíu stiga hita í desember. Þetta er með ólíkindum,” segir Óskar Páll, hestamaður í Spretti.
Skógfræðingur segir það frábæra hugmynd að gróðursetja í þessu veðurfari.
“Þetta er í rauninni besti tíminn. Plönturnar eru í dvala og það er ófrosin jörð og fólk á endilega að nýta tímann til gróðusetningar ef það hefur tök á,” segir Aðalsteinn Sigurgeirsson og bætir við að ekki þurfi að hafa áhyggjur af gróðrinum í svona tíð.
„Þessar trjátegundir sem við erum með eru aðlagaðar svona hita á þessum tíma, þær eru komnar í djúpan dvala og það þarf eitthvað mikið að ganga á til að þær brjóti þann dvala og laufgist,” segir hann og að þvert á móti gætu hlýindin haft góð áhrif á gróðurinn.
„Það getur einmitt gerst að þegar vorið kemur þá verður enginn holklaki í jörðu, rótarkerfið er bara tilbúið að fara af stað og það verða í raun minni ræktunarvandamál, en annars,” segir Aðalsteinn, skógfræðingur.
