Ég hafði samband við vinkonu mína, Oddnýju E. Magnúsdóttur á Húsavík, sem er þjóðfræðingur og spurði hvort hún væri ekki til í að koma með mér í íslenskar kirkjur að skoða altarisdúka og hún var það. Þannig fór snjóbolti af stað.



„Kærleikur og virðing tengjast oft gerð altarisdúka, í mörgum tilfellum eru þeir minningargjafir. Við vitum dæmi um að fleiri en einn ættliður hefur sameinast um að gera dúk, jafnvel heilt kvenfélag þannig að dúkur hafi gengið á milli kvenna þar til saumaskap var lokið. Til er líka að kona hafi séð fyrir sér rúmlegu eða rólegheit í einhvern tíma og þá notað tímann í að gera altarisdúk. Svo hafa nokkrar konur gert marga altarisdúka. Ein þeirra var Anna frá Moldnúpi undir Eyjafjöllum, við höfum víða rekist á dúka eftir hana.“

Dúkarnir hafa varðveist misjafnlega. Jenný segir þá einkum eiga þrjá óvini. Þvottavélar og þurrkarar eru þar algerlega í fyrsta sæti. Sólin er óvinur númer tvö og svo eru það mýsnar. „Eina gamla konu hitti ég sem hafði jafnan tólgarmola eða kerti einhvers staðar undir kirkjubekk handa músunum svo þær gæddu sér síður á dúknum.“
Jenný segir alltaf gaman að sjá ný munstur og dúk sem fer vel á altari kirkjunnar. „Það þarf öðru vísi munstur í stórar kirkjur en litlar og verður að huga að því að hönnun dúks falli vel að hverri kirkju fyrir sig.
Spurð hvort hún telji um listaverk að ræða þar sem altarisdúkar séu segir Jenný að minnsta kosti listahandverk á sumum þeirra. „Svo hafa listakonur líka hannað og unnið dúka sem eru þá einstakir,“ segir hún og getur þess að áhugi virðist á margs konar handverki í dag og vonandi verði svo áfram.
En sitja íslenskar konur enn við að bródera eða hekla altarisdúka? „Já, já, það er víða verið að gera dúka. Til dæmis er kominn nýr og fallegur dúkur í Reykholtskirkju í Borgarfirði sem Helga Magnúsdóttir saumaði og líka kom sérhannaður dúkur eftir Bryndísi Símonardóttur í Saurbæjarkirkju í Eyjafirði á þessu ári. Mjög merkilegt framtak,“ segir Jenný.

„Ja, ekki er það beint á dagskrá. Áður en farið er að skoða svoleiðis þarf rannsóknin að ná yfir allt landið. Við eigum Breiðafjörð, Snæfellsnes, Vestfirði, höfuðborgarsvæðið, Rangárvallasýslu, Skaftafellssýslur og Austfirði eftir.
Stundum finnst okkur við vera í kapphlaupi við tímann við að afla upplýsinga um gamla altarisdúka. Við settum okkur markmið í upphafi. Það fyrsta var að skoða munstur á altarisdúkum, annað var að hafa gaman af því og þriðja var að gera okkur þetta að kostnaðarlausu.
Í upphafi sóttum við um styrk til Kristnihátíðarsjóðs og kom hann okkur vel af stað. Ýmsir fleiri menningarsjóðir hafa styrkt verkefnið og erum við þakklátar fyrir. Við lifum mjög spart á ferðalögum okkar, en bensínkostnaður er óhjákvæmilegur. Auðvitað dreymir okkur um fjármagn til að halda áfram þessari vinnu.
Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 3. desember 2016.