Viðskipti innlent

Eigendur CCP sagðir íhuga sölu

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Björgólfur Thor Björgólfsson er einn aðaleigenda CCP.
Björgólfur Thor Björgólfsson er einn aðaleigenda CCP. Mynd/GVA/CCP
Eigendur íslenska tölvuleikjaframleiðandans CCP eru sagðir íhuga sölu á fyrirtækinu eftir að áhugasamir kaupendur hafa stigið fram.

Bloomberg greinir frá en samkvæmt heimildum fréttastofu Bloomberg gæti söluvirði CCP verið allt að 106 milljarðar eða um 900 milljónir evra. 

Til samanburðar má geta þess að markaðsvirði Icelandair er um 130 milljarðar, markaðsvirði Icelandair um 180 milljarðar og markaðsvirði Össurar um 190 milljarðar.

Stærsti einstaki eigandi CCP er Novator Partners LLP, fjárfestingarfélag Björgólfs Thors Björgólfssonar en aðrir stórir hluthafar eru meðal annars fjárfestingasjóðirnir General Catalyst Partners og framtakssjóðurinn New Enterprise Associates sem fjárfesti í CCP á síðasta ári fyrir fjóra milljarða króna

CCP skilaði methagnaði á síðasta ári upp á 2,7 milljarða, eftir 8,7 milljarða tap árið áður. Félagið hefur á síðustu árum fært sig í auknum mæli yfir í þróun sýndarveruleika en fyrirtækið var stofnað árið 1997 í kringum þróun á tölvuleiknum vinsæla EVE Online.

Á undanförnum árum hefur fyrirtækið gefið út leikina Gunjack og Valkyrie sem spila má með sýndaveruleikabúnaði. Von er á Gunjack 2 sem er sérstaklega gerður fyrir sýndarveruleikabúnað Google.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×