Fótbolti

Guardiola: Þetta er úrslitaleikur fyrir okkur

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Pep á bekknum í leiknum í Barcelona.
Pep á bekknum í leiknum í Barcelona. vísir/getty
Það er risaleikur í Meistaradeildinni í kvöld er Man. City tekur á móti Barcelona.

City steinlá, 4-0, gegn Börsungum á Spáni og liðið hefur mikið að sanna í kvöld og þarf líka sárlega á stigum að halda. Liðið er í öðru sæti fyrir leikinn en aðeins stigi á undan Borussia Mönchengladbach.

Sergio Aguero byrjar væntanlega í kvöld en hann byrjaði á bekknum á Spáni.

„Við töpuðum tveim stigum gegn Celtic og þurfum að endurheimta þau stig. Þetta er ekki úrslitaleikur fyrir Barcelona en þetta er úrslitaleikur fyrir okkur,“ sagði Guardiola en Barcelona er á toppnum með fullt hús.

„Það verður að vera 100 prósent einbeiting í 90 mínútur því við vitum að annars mun Barcelona refsa okkur. Slík eru gæðin í þeirra liði. Við fengum færi í fyrri leiknum og ef við nýtum færin núna þá eigum við möguleika. Ég hef aldrei mætt í leik og haldið að við ættum ekki möguleika. Til að vinna þennan leik þarf nánast að spila fullkominn leik.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×