„Ég vil láta ungt fólk vita af hverju það er svo mikilvægt að nýta atkvæði sitt,“ sagði Obama. „Þetta eru líklega mikilvægustu kosningar á okkar líftíma.“
Hillary Clinton og Donald Trump berjast um að vera næsti forseti Bandaríkjana. Obama hefur á undanförnum vikum talað mikið fyrir því að Clinton verði kosin og segir hann að til þess að svo verði sé mikilvægt að að ungt fólk nýti kosningarétt sinn. Átti það til að mynda stóran þátt í því að Obama var kjörinn forseti á sínum tíma en honum gekk einstaklega vel að höfða til ungs fólks.
Hvatti Obama ungt fólk til þess að hugsa um þau málefni sem þau telja mikilvægi og nýta atkvæði sitt til að stuðla að þeirri framtíð sem þau vilja stuðla að. Vísaði hann til þess að ungt fólk yrði að vera tilbúið til þess að nota tímann í að kynna sér málefnin, það mætti ekki bara hanga á YouTube að horfa á kattamyndbönd sem verður að viðurkennast að er merkilega gaman.
„Ég vona að ungt fólk sé reiðubúið til þess að nota um það bil sama tíma og það horfir á kattamyndbönd í símanum í að tryggja að lýðræðir virki,“ sagði Obama í nokkuð gamansömum tón.