Hækkunin hefur valdið titringi í samfélaginu og hafa stjórnmálamenn og hagsmunasamtök kallað eftir því að ákvörðunin verði endurskoðuð.
„Í fyrsta lagi hef ég fullan skilning á því að fólki þykir þetta vera úr öllum takti miðað við kjaramál undanfarin misseri,“ sagði Bjarni á Bessastöðum þar sem hann var nýtekinn við stjórnarmyndunarumboði frá forseta Íslands. Hann segir að endurskoða þurfi hlutverk kjararáðs.
„Komi til þess að þingið grípi inn í þessi mál reynum við að skapa grundvöll fyrir varanlega lausn. Ég hef beitt fyrir því að lögum um kjararáð verði breytt með róttækum hætti. Þar var ég fyrst og fremst að vísa til þess að það væri óþarflega margir undir kjararáði. Það þarf að setja lög um það til hvers kjararáð eigi að líta til þegar kjör þeirra eru ákveðin.
Bjarni sagði að nauðsynlegt gæti reynst að þingið myndi grípa inn í ákvörðun kjararáðs sem tekin var síðastliðinn laugardag, sama dag og þingkosningarnar fóru fram. Bjarni segist ekki hafa vitað af ákvörðun kjararáðs fyrirfram.
„Nei, þetta er ákvörðun sem alfarið er tekin af kjararáði. Ég vissi ekki hvað kjararáð myndi ákveða.“