Fótbolti

Ari sagði nafnið sitt við mikinn fögnuð | Skúlason-manía í Parma

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Einhver gæti sagt að Ari Freyr Skúlason, vinstri bakvörður íslenska fótboltalandsliðsins, sé mættur á heimavöll sinn í Parma þrátt fyrir að hafa aldrei spilað með liði á Ítalíu.

Íslenska liðið undirbýr sig fyrir leik á móti Króötum um næstu helgi og fékk að gera það í Parma á Ítalíu þar sem liðið er á vegum Errea sem framleiðir búninga liðsins. Þar munu strákarnir okkar eyða tímanum fram að leiknum í Zagreb.

Það var frægt í sumar þegar íbúar smábæjarins Pieve di Cento á Ítalíu tóku miklu ástfóstri við íslenska bakvörðinn þegar öll Evrópa dáðist af afrekum íslenska fótboltalandsliðsins á Evrópumótinu í Frakklandi.

Þau elskuðu ekki fyrirliðann Aron Einar Gunnarsson, Birki Bjarnason, Gylfa Þór Sigurðsson, markvörðinn Hannes Þór Halldórsson eða miðverðina Kára Árnason og Ragnar Sigurðsson.

Nei, Ari Freyr Skúlason er stjarna íslenska liðsins í þeirra augum. Íbúar Pieve di Cento gengu svo langt að halda Skúlason-hátíð eins og sjá má í myndbandinu í spilaranum hér fyrir ofan.

Fulltrúar bæjarins eru að sjálfsögðu mættir til Parma sem er í um eins og hálfs tíma fjarlægð frá Pieve di Cento. Næst á dagskrá er að gera Ara Frey að heiðursborgara Pieve di Cento.

Bæjarbúarnir sem voru komnir til Parma hópuðust í kringum Ara Frey og settu myndbandið með sér og íslenska landsliðsmanninum inn á Fésbókina.

Það er hægt að sjá þessi myndbönd og fleiri inn á fésbókarsíðu sem er helguð Ara Frey Skúlasyni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×