Fótbolti

Ronaldo: Ég dáðist að Zidane sem leikmanni og nú dáist ég að honum sem þjálfara

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Ronaldo og Zidane eru félagar.
Ronaldo og Zidane eru félagar. vísir/getty
Zinedine Zidane, þjálfari Real Madrid, er ein stærsta ástæða þess að Cristiano Ronaldo skrifaði undir nýjan samning við spænska risann en hann gerði það í vikunni og verður á Bernabéu næstu fimm árin.

Ronaldo hefur verið þrálátlega orðaður við brottför frá Real Madrid undanfarin ár og þá oftast talinn líklegur til að endurnýja kynnin við Manchester United. Það verður að öllum líkindum ekkert úr því.

Portúgalski landsliðsfyrirliðinn gat ekki talað nógu fallega um Zidane í viðtali við sjónvarpsstöð Real Madrid en Zidane stýrði Real til sigurs í Meistaradeildinni á sinni fyrstu leiktíð.

„Hann er leikmaður sem á sér sess í sögu Real Madrid og nú er hann þjálfari liðsins. Ég dáði hann sem leikmann og nú dái ég hann sem persónu og þjálfara,“ segir Ronaldo í viðtali við Real Madrid TV.

„Það var frábært fyrir hann að vinna Meistaradeildina á fyrstu leiktíð og var eitthvað sem hann hafði dreymt um. Við töluðum saman eftir úrslitaleikinn. Það voru skemmtilegar og góðar stundir. Við vorum báðir mjög spenntir.“

„Þetta er búið að vera frábært ár fyrir mig. Ég vann Meistaradeildina og varð Evrópumeistari með Portúgal. Þetta var eiginlega fullkomið ár,“ segir Cristiano Ronaldo.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×