Viðskipti innlent

Stærsta þota Bombardier mátar Reykjavíkurflugvöll

Kristján Már Unnarsson skrifar
Bombardier CS-300 á Reykjavíkurflugvelli í dag.
Bombardier CS-300 á Reykjavíkurflugvelli í dag. Stöð 2/Baldur Hrafnkell Jónsson.
Stærsta farþegaþota Bombardier og nýjasta stolt kanadískrar flugvélaframleiðslu millilenti í Reykjavík eftir flugprófanir í Evrópu. Í fréttum Stöðvar 2 í kvöld verða sýndar myndir af flugvélinni og rætt við flugstjórann. 

Flugfélag Íslands er þegar komið með fimm Bombardier-skrúfuþotur sem taka allt að 76 farþega. Nýjasta tegundin frá verksmiðjunum í Montreal í Kanada er hins vegar tvöfalt stærri, heitir Bombardier CS 300 og tekur allt að 160 farþega. Flugprófanir hafa staðið yfir í eitt og hálft ár en Air Baltic verður fyrsta flugfélagið sem tekur hana í notkun í næsta mánuði.

Flugstjórinn Mark Elliot í viðtali við Stöð 2.Stöð 2/Baldur Hrafnkell Jónsson.
Kanadamenn lögðu henni beint fyrir utan höfuðstöðvar Icelandair á Reykjavíkurflugvelli og buðu fulltrúum íslenskra flugrekenda að skoða gripinn enda vonast þeir til að geta selt Íslendingum fleiri Bombardier-vélar.

Þotan er sögð sparneytin og afar hljóðlát, hljóðspor hennar er sagt fjórfalt minna en hjá eldri vélum. Hún þarf einnig stuttar flugbrautir og flugstjórinn, Mark Elliot, segir brautirnar í Reykjavík nægilegar langar til að hún geti flogið þaðan fullhlaðin farþegum, bæði til Evrópu og Bandaríkjanna.

Flugtak Bombardier-þotunnar verður sýnt á Stöð 2 í kvöld. Frá Reykjavík var áætlað að vélin flygi til Kansas í Bandaríkjunum án millilendingar.Stöð 2/Baldur Hrafnkell Jónsson.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×