Enski boltinn

Stóri Sam er ekki hættur og segist hafa verið að gera vini sínum greiða

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Stóri Sam er ekki hættur í þjálfun.
Stóri Sam er ekki hættur í þjálfun. vísir/getty
Sam Allardyce, fráfarandi þjálfari enska landsliðsins í fótbolta, ætlar að snúa aftur í þjálfun.

Allardyce setti sig í samband við Sky Sports þar sem hann sagðist ekki vera sestur í helgan stein og að þjálfarastarfið hjá Englandi verði ekki hans síðasta á ferlinum. Allardyce hætti sem þjálfari enska landsliðsins í gær í kjölfar uppljóstrana The Telegraph.

Allardyce var staðinn að því að samþykkja 400.000 punda greiðslu fyrir að hjálpa viðskiptajöfrum frá Austurlöndum fjær (sem voru blaðamenn The Telegraph í dulargervi) að fara á svig við reglur enska knattspyrnusambandsins um kaup á leikmönnum í eigu þriðja aðila. Eignarhald þriðja aðila á leikmönnum hefur verið bannað á Englandi frá 2008.

Sjá einnig: Stóri Sam segist iðrast gjörða sinna

Í myndbandinu, sem birtist á vef The Telegraph, þar sem Allardyce sést samþykkja greiðsluna fer hann einnig háðulegum orðum um Roy Hodgson, forvera sinn í starfi landsliðsþjálfara, og Gary Neville, fyrrum aðstoðarþjálfara Hodgson.

Allardyce tjáði Sky Sports að hann hafi farið á fundinn til að hjálpa vini sínum til margra ára, umboðsmanninum Scott McGarvey, en ekki til að græða meiri pening. Þetta hafi verið vinargreiði en ekki græðgi.

Sjá einnig: Shearer: Enska landsliðið er aðhlátursefni

Allardyce er nú á leið í frí út fyrir landsteinana þar sem hann ætlar að hugsa sinn gang eins og hann segir í viðtalinu hér að neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×