Enski boltinn

Shearer: Enska landsliðið er aðhlátursefni

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Stóri Sam entist aðeins 67 daga í draumastarfinu.
Stóri Sam entist aðeins 67 daga í draumastarfinu. vísir/getty
Alan Shearer, fyrrverandi landsliðsfyrirliði Englands, segir að enska landsliðið sé aðhlátursefni í fótboltaheiminum eftir að Sam Allardyce hætti sem landsliðsþjálfari eftir aðeins 67 daga í starfi.

Allardyce tók við enska landsliðinu í sumar eftir að Roy Hodgson sagði af sér eftir tapið fyrir Íslandi í 16-liða úrslitum á EM í Frakklandi. Allardyce náði þó aðeins að stýra enska liðinu í einum leik, 0-1 útisigri á Slóvakíu.

Sjá einnig: Stóri Sam segist iðrast gjörða sinna

Shearer er afar vonsvikinn yfir stöðu enska landsliðsins.vísir/getty
Í fyrradag birti The Telegraph myndband þar sem Allardyce sést þiggja 400.000 punda greiðslu fyrir að hjálpa viðskiptajöfrum frá Austurlöndum fjær (sem voru blaðamenn The Telegraph í dulargervi) við að fara á svig við reglur enska knattspyrnusambandsins um kaup á leikmönnum í eigu þriðja aðila.

„Ég er reiður, ég er vonsvikinn og ég er hissa á dómgreindarbrestinum sem hann sýndi í því sem hann sagði vera draumastarfið sitt,“ sagði Shearer sem skoraði 30 mörk í 63 landsleikjum á sínum tíma.

„Ég hélt að enska landsliðið gæti ekki sokkið dýpra eftir tapið fyrir Íslandi en núna erum við aðhlátursefni í heimsfótboltanum,“ bætti Shearer við.

Gareth Southgate tekur við enska landsliðinu til bráðabirgða og stýrir því í næstu fjórum leikjum þess.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×