Fótbolti

Breiðablik mætir sænsku meisturunum í Meistaradeildinni

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Blikarnir unnu sinn riðil í Wales og mæta Rosengård.
Blikarnir unnu sinn riðil í Wales og mæta Rosengård. vísir/hanna
Ríkjandi Íslandsmeistarar Breiðabliks mæta sænsku meisturunum í Rosengård í 32 liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu en dregið var til 32 liða úrslitana í hádeginu.

Breiðablik þurfti að fara í gegnum forkeppni þar sem það vann sinn fjögurra liða riðil og komst þannig í pottinn fyrir dráttinn í dag.

Sara Björk Gunnarsdóttir varð fjórum sinnum sænskur meistari með Rosengård áður en hún yfirgaf liðið fyrr á þessu ári og gekk í raðir þýska stórveldisins Wolfsburg.

Wolfsburg, sem tapaði úrslitaleiknum í Meistaradeildinni í maí gegn Lyon frá Frakklandi, mætir Chelsea frá Englandi í 32 liða úrslitunum.

Avaldsnes frá Noregi mætir meisturum Lyon í næstu umferð en með Avaldsnes spila Hólmfríður Magnúsdóttir og Þórunn Helga Jónsdóttir. Glódís Perla Viggósdóttir og stöllur hennar í sænska liðinu Eskilstuna mæta svo Gasgow City frá Skotlandi.

Leikirnir fara fram 5.-6. september og 12.-13. september.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×