Íslenski boltinn

Geir: Félögin ráða í hvað EM-peningarnir fara | Ekkert eftirlit

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Eins og fram kom á Vísi fyrr í dag er KSÍ búið að úthluta 453 milljónum króna til aðildarfélaga sambandsins. Þetta er hluti af peningunum sem KSÍ fékk vegna frábærs árangurs karlalandsliðsins á EM í Frakklandi.

Á ársþingi KSÍ fyrr á þessu ári var tilkynnt að aðildarfélögin fengju 300 milljónir en sú upphæð var hækkuð og er um fjórðungur upphæðarinnar sem KSÍ fékk frá UEFA, Knattspyrnusambandi Evrópu.

Framlag til aðildarfélaga byggist fyrst og fremst á stöðu meistaraflokka karla og kvenna í deildarkeppni síðastliðin þrjú ár, eða á því tímabili sem EM og undankeppni EM náði yfir.

„Stærstu félögin fá mest. Það er reynt að mæla umfang og stærð félaganna. Fyrst og fremst byggir þetta á árangri félaganna í deildakeppninni þessi þrjú ár,“ sagði Geir Þorsteinsson, formaður KSÍ, í samtali við Kjartan Atla Kjartansson í kvöldfréttum Stöðvar 2.

Í tilkynningunni frá KSÍ í dag kom fram að EM-peningunum skyldi einungis varið til knattspyrnutengdra verkefna félaganna. En mun KSÍ hafa eftirlit með því hvernig félögin ráðstafa peningunum?

„Á engan hátt. Þetta er á ábyrgð aðildarfélaga sambandsins,“ sagði Geir.

Í viðtali við íþróttadeild 365 eftir EM sagði Lars Lagerbäck, fráfarandi landsliðsþjálfari, að æskilegast væri ef EM-peningurinn færi í að styrkja unglingastarf félaganna. Geir segir að það sé alfarið á ábyrgð aðildarfélaga KSÍ hvernig þau ráðstafi peningunum.

„Félögin sjá um sinn rekstur og við sjáum um rekstur sambandsins. Ég treysti því að þessir fjármunir nýtist íslenskri knattspyrnuhreyfingu vel,“ sagði Geir.

Innslagið í heild sinni má sjá hér að ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×