Skoðun

Hinsegin í útlöndum

Lilja Dögg Alfreðsdóttir skrifar
Á morgun göngum við til gleði. Ísland hefur um árabil verið í hópi forysturíkja hvað varðar virðingu fyrir mannréttindum hinsegin fólks.

Árangursrík barátta gegn hvers konar fordómum og mismunun á grundvelli kynhneigðar og kyngervis hefur aukið fjölbreytileika í þjóðfélaginu.

Víða um heim er það þó svo að hinsegin fólk er ofsótt og nýtur ekki grundvallarmannréttinda. Í sumum ríkjum er samkynhneigð álitin glæpur og stjórnvöld hika ekki við að skerða frelsi og réttindi hinsegin fólks. Í fjölmörgum ríkjum hafa lagalegar og samfélagslegar breytingar átt sér stað að undanförnu sem bætt hafa stöðu hinsegin fólks en hatursglæpir á borð við nýlega árás í Orlando sýna að víða er mikið verk óunnið.

Íslensk stjórnvöld beita sér fyrir mannréttindum hinsegin fólks í tvíhliða samskiptum við önnur lönd og á vettvangi alþjóðastofnana. Stundum er á brattann að sækja en í góðu samstarfi við Norðurlönd og aðra má finna leiðir til þess að knýja fram úrbætur. Á vettvangi Sameinuðu þjóðanna hefur Ísland gagnrýnt mannréttindabrot og bent á skuldbindingar ríkja til að vernda og virða mannréttindi allra. Þá eru réttarbætur hinsegin fólks ávallt á dagskrá í samskiptum við stjórnvöld ríkja þar sem úrbóta er þörf.

Glöggt er gests augað og með alþjóðlegu samstarfi gefst einnig kostur á úrbótum heima fyrir. Þannig veitir ný skýrsla stjórnvalda til mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna góða yfirsýn um stöðu mála hérlendis og þann árangur sem náðst hefur, en einnig aðhald þar sem gera má betur. Á haustmánuðum munu stjórnvöld svo njóta liðsinnis Mannréttinda- og lýðræðisstofnunar ÖSE til að efla þekkingu og störf gegn hatursglæpum í íslensku þjóðfélagi.

Saman viljum við stuðla að því að réttur milljóna hinsegin fólks verði virtur í hvívetna og mannlíf í sinni fjölbreyttustu mynd fái blómstrað.

Pistillinn birtist fyrst í Fréttablaðinu




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×