Hillary með háð að vopni Kristín Þorsteinsdóttir skrifar 30. júlí 2016 07:00 Hillary Clinton er fyrsta konan í sögu Bandaríkjanna, sem er útnefnd forsetaframbjóðandi annars stóru flokkanna. Hún hefur oft sagt söguna af móður sinni, Dorothy Rodham, sem brýndi fyrir henni í æsku að láta ekki hrekkjusvín slá sig út af laginu. Við erum ekki hugleysingjar á þessu heimili, sagði móðirin. Þessi skilaboð voru eins og rauður þráður í uppeldinu. Brýningarorð móðurinnar svifu yfir vötnunum í ávarpi Hillary til flokksþings demókrata í Fíladelfíu í vikunni. Hún lét „hrekkjusvínin“, Donald Trump og hans stuðningslið, sem ekki hafa farið um hana mjúkum höndum, svo sannarlega heyra það. Af þeirra hálfu hefur hún sætt linnulausum ásökunum um spillingu og alvarleg lögbrot. Hillary var greinilega í essinu sínu þegar hún beindi orðum að Trump, sem viku fyrr var útnefndur af hálfu repúblikana. Full sjálfstrausts hæddi hún hann og spottaði. Ef dæma má af viðbrögðum Trumps og stuðningssveitar hans, sem ekki létu á sér standa, hitti hún beint í mark. Þeir brugðust strax ókvæða við á samskiptamiðlunum. En Hillary var málefnaleg og studdist við alkunnar staðreyndir, sem henni tókst fimlega að setja í skoplegt ljós. Slíku er erfitt að verjast. Þarna sýndi Hillary á sér nýja hlið. Í prófkjörsslag sínum við Bernie Sanders undanfarið og Barack Obama fyrir átta árum var hún hikandi í gagnrýni á andstæðinginn. Hún steig varlega til jarðar og átti erfitt með að halda á lofti veilum í málflutningi andstæðinganna. Hún forðaðist líka að gera lítið úr þeim persónulega. Því réð ekki bara tillitssemi hennar við flokksbræður – hún óttaðist líka að festa í sessi þá mynd sem dregin er upp af henni, með réttu eða röngu, að hún sé meinfýsin og kaldrifjuð. Um Trump gilda allt aðrar reglur. Hann hefur sjálfur gefið tóninn með ruddaskap og furðulegum yfirlýsingum um menn og málefni þar sem hvað rekst á annars horn, ekki bara um andstæðinga í pólitík, heldur líka sleggjudómum um einstaklinga og hópa, smáa og stóra, nær og fjær. Barátta hans er leðjuslagur, sem virðist ætla að halda áfram allt til loka. Veilurnar í málflutningnum blasa við. Hún hefur einstaka sinnum í prófkjörsslagnum við Bernie Sanders beint spjótum sínum að Trump. Á flokksþinginu í San Diego í Kaliforníu tætti hún stefnu hans í sig með stólpagríni. Það fékk góðan hljómgrunn. Fróðlegt verður að fylgjast með baráttunni næstu hundrað dagana. Trump hefur sýnt að hann er slyngur áróðursmaður, sem erfitt er að slá út af laginu. Óvarlegt tal og yfirlýsingagleði hafa ekki verið honum hindrun í eigin flokki. Spurningin er hvort Hillary er búin að finna leiðina með beittu málefnalegu háði. Það virkaði í útnefningarræðunni. Eitt er víst að sjaldan hafa frambjóðendur til valdamesta embættis í heimi legið betur við höggi. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Donald Trump Kristín Þorsteinsdóttir Mest lesið Sjálfstæðismenn boða víst skattalækkanir á þá efnamestu Haukur V. Alfreðsson Skoðun Almageddon? Eyþór Kristleifsson Skoðun Viltu borga 200 þús á mánuði eða 600 þús á mánuði af íbúðinni? Hildur Þórðardóttir Skoðun Fellur helsti stuðningsmaður menningarmála af þingi? Magnús Logi Kristinsson Skoðun Það sem ekki má fjalla um fyrir kosningar til Alþingis Árni Jensson Skoðun ESB kærir sig ekkert um Ísland í jólagjöf Ole Anton Bieltvedt Skoðun Óstjórn í húsnæðismálum Ragnar Þór Ingólfsson Skoðun Betri Strætó 2025 og (svo) Borgarlína Dagur B. Eggertsson Skoðun Afvegaleidd umræða um áskoranir heilbrigðiskerfisins Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir Skoðun Vímuefnið VONÍUM Haraldur Ingi Haraldsson Skoðun
Hillary Clinton er fyrsta konan í sögu Bandaríkjanna, sem er útnefnd forsetaframbjóðandi annars stóru flokkanna. Hún hefur oft sagt söguna af móður sinni, Dorothy Rodham, sem brýndi fyrir henni í æsku að láta ekki hrekkjusvín slá sig út af laginu. Við erum ekki hugleysingjar á þessu heimili, sagði móðirin. Þessi skilaboð voru eins og rauður þráður í uppeldinu. Brýningarorð móðurinnar svifu yfir vötnunum í ávarpi Hillary til flokksþings demókrata í Fíladelfíu í vikunni. Hún lét „hrekkjusvínin“, Donald Trump og hans stuðningslið, sem ekki hafa farið um hana mjúkum höndum, svo sannarlega heyra það. Af þeirra hálfu hefur hún sætt linnulausum ásökunum um spillingu og alvarleg lögbrot. Hillary var greinilega í essinu sínu þegar hún beindi orðum að Trump, sem viku fyrr var útnefndur af hálfu repúblikana. Full sjálfstrausts hæddi hún hann og spottaði. Ef dæma má af viðbrögðum Trumps og stuðningssveitar hans, sem ekki létu á sér standa, hitti hún beint í mark. Þeir brugðust strax ókvæða við á samskiptamiðlunum. En Hillary var málefnaleg og studdist við alkunnar staðreyndir, sem henni tókst fimlega að setja í skoplegt ljós. Slíku er erfitt að verjast. Þarna sýndi Hillary á sér nýja hlið. Í prófkjörsslag sínum við Bernie Sanders undanfarið og Barack Obama fyrir átta árum var hún hikandi í gagnrýni á andstæðinginn. Hún steig varlega til jarðar og átti erfitt með að halda á lofti veilum í málflutningi andstæðinganna. Hún forðaðist líka að gera lítið úr þeim persónulega. Því réð ekki bara tillitssemi hennar við flokksbræður – hún óttaðist líka að festa í sessi þá mynd sem dregin er upp af henni, með réttu eða röngu, að hún sé meinfýsin og kaldrifjuð. Um Trump gilda allt aðrar reglur. Hann hefur sjálfur gefið tóninn með ruddaskap og furðulegum yfirlýsingum um menn og málefni þar sem hvað rekst á annars horn, ekki bara um andstæðinga í pólitík, heldur líka sleggjudómum um einstaklinga og hópa, smáa og stóra, nær og fjær. Barátta hans er leðjuslagur, sem virðist ætla að halda áfram allt til loka. Veilurnar í málflutningnum blasa við. Hún hefur einstaka sinnum í prófkjörsslagnum við Bernie Sanders beint spjótum sínum að Trump. Á flokksþinginu í San Diego í Kaliforníu tætti hún stefnu hans í sig með stólpagríni. Það fékk góðan hljómgrunn. Fróðlegt verður að fylgjast með baráttunni næstu hundrað dagana. Trump hefur sýnt að hann er slyngur áróðursmaður, sem erfitt er að slá út af laginu. Óvarlegt tal og yfirlýsingagleði hafa ekki verið honum hindrun í eigin flokki. Spurningin er hvort Hillary er búin að finna leiðina með beittu málefnalegu háði. Það virkaði í útnefningarræðunni. Eitt er víst að sjaldan hafa frambjóðendur til valdamesta embættis í heimi legið betur við höggi.