Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu handtók í gærkvöldi par á veitingastað sem staðið var að ósæmilegri hegðun inni á salerni og fyrir að greiða ekki fyrir mat sem þau pöntuðu. Í dagbók lögreglunnar kemur fram að lögreglumenn hafi skorist í leikinn og rætt við parið en þá hafi karlmaðurinn brugðist illur við og mátti lögreglan handtaka parið en á því fundust mikið magn fíkniefna ásamt hníf sem karlmaðurinn bar. Var parið vistað í fangaklefa vegna fjársvika, vopnalaga og vörslu fíkniefna.
Þá var gerð umfangsmikil leit að erlendum ferðamanni frá tíunda tímanum í gærkvöldi og fram eftir nóttu. Landsbjörg var kölluð til aðstoðar við lögreglu, notast var við báta, sporhund og nokkra leitarhópa. Ferðamaðurinn skilaði sér af sjálfsdáðum á hótel í borginni.
Á níunda tímanum í gærkvöldi steyptist lítil tveggja sæta flugvél fram yfir sig og hafnaði á nefinu við lendingu á Tungubakkaflugvelli. Nokkrar skemmdir urðu á vélinni en flugmaðurinn slapp við meiðsli. Rannsóknarnefnd flugslysa rannsakar málið.

