Körfubolti

Íslenska stúlknalandsliðið á tvo af fjórum bestu frákösturum Evrópumótsins

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Elín Sóley Hrafnkelsdóttir tekur frákast á móti Bosníu.
Elín Sóley Hrafnkelsdóttir tekur frákast á móti Bosníu. Mynd/FIBAEurope
Íslenska 18 ára landslið kvenna í körfubolta er komið alla leið í átta liða úrslit B-deildar Evrópukeppninnar þar sem íslensku stelpurnar mæta Hvíta-Rússlandi á morgun.

Fráköstin eiga sinn þátt í góðu gengi íslenska liðsins á mótinu en stelpurnar hafa unnið þrjá af fyrstu fjórum leikjum sínum og aðeins tapað á móti geysisterku heimaliði Bosníumanna.

Aðeins Svíar hafa tekið fleiri fráköst að meðaltali en íslenska liðið sem hefur verið með 51,3 fráköst að meðaltali í fyrstu fjórum leikjum sínum.

Tveir leikmenn íslenska liðsins standa öðrum framar í liðinu þegar kemur að fráköstunum en það eru þær Sylvía Rún Hálfdanardóttir og Elín Sóley Hrafnkelsdóttir. Sylvía Rún kemur úr Haukum en Elín Sóley úr Breiðabliki. Elín Sóley skipti nýverið yfir í Val og mun spila á Hlíðarenda í vetur.

Sylvía Rún og Elín Sóley tóku 35 fráköst saman í sigrinum á Norðurlandameisturum Finna í gær og eru báðar í hópi fjögurra bestu frákastara Evrópumótsins. Allt finnska liðið tók sem dæmi 40 fráköst og íslensku stelpurnar unnu fráköstin með 22.

Sylvía Rún Hálfdanardóttir er í 3. sæti með 11,5 fráköst í leik en hún er einn fjórði stigahæsti leikmaðurinn með 17,5 stig í leik. Sylvía Rún er með 4,5 sóknarfráköst og 7,0 varnarfráköst að meðaltali.

Elín Sóley Hrafnkelsdóttir er í 4. sætinu með 11,3 fráköst í leik en hún er síðan í 16. sæti yfir skoruð stig með 13,3 stig í leik. Elín Sóley er með 4,8 sóknarfráköst og 6,5 varnarfráköst að meðaltali.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×