Enski boltinn

Guardiola nú búinn að ná í Þjóðverja, Ástrala og Spánverja til Man. City

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Nolito er nýjasti leikmaður Manchester City.
Nolito er nýjasti leikmaður Manchester City. Vísir/Getty
Manchester City hefur keypt upp samning Nolito hjá spænska félaginu Celta Vigo fyrir 13,8 milljónir punda eða 2,2 milljarða íslenskra króna. Nolito var kynntur sem leikmaður City í morgun.

Eins og venjan er á Spáni þá geta menn keypt um samning leikmanna fyrir ákveðinn pening og þetta var upphæðin í samning Nolito. Celta Vigo gátu því lítið gert í að halda honum eða heimta hærri upphæð.

Nolito skrifaði undir fjögurra ára samning við Manchester City sem rennur því ekki út fyrr en 30. júní 2020.

Hinn 29 ára gamli spænski landsliðsmaður verður þriðji leikmaðurinn sem kemur til Manchester City í sumar en nýi knattspyrnustjórinn Pep Guardiola er kominn af stað með að móta sitt lið.

Pep Guardiola hafði áður fengið Ilkay Gundogan frá Borussia Dortmund fyrir 20 milljónir punda og ástralska miðjumanninn Aaron Mooy.

Nolito byrjaði alla fjóra leiki spænska landsliðsins á EM og var bæði með mark og stoðsendingu í sigurleiknum á móti Tyrkjum.

„Ég tel að sé einn af bestu knattspyrnustjórum í heimi. Hann veit mikið um leikinn og hann mun hjálpa mér að þróast sem leikmaður. Ég er viss um að hann nær því besta út úr mér," sagði Nolito en hans rétta nafn er Manuel Agudo Duran.

Nolito spilaði með Celta de Vigo frá því sumarið 2013 en áður lék hann með Benfica í Portúgal í tvö tímabil.

Nolito var með 40 mörk og 23 stoðsendingar í 100 leikjum með Celta de Vigo í spænsku deildinni frá 2013-2016 þar af 12 mörk og 7 stoðsendingar í 29 leikjum á síðasta tímabili.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×