Innlent

Á fimmta degi hungurverkfalls

Þórhildur Þorkelsdóttir skrifar
Raisan Al-Shimani segist ekki ætla að fara lifandi aftur til Írak.
Raisan Al-Shimani segist ekki ætla að fara lifandi aftur til Írak. VÍSIR/SKJÁSKOT
Hælisleitandi frá Írak er nú á fimmta degi hungurverkfalls og biðlar til íslenskra stjórnvalda að taka mál hans til efnislegrar skoðunar. Hann varð vitni að því þegar lögreglumenn drógu samlanda hans með valdi út úr Lauganeskirkju í síðustu viku og óttast að hljóta sömu örlög.

Raisan Al-Shimani er 39 ára og hefur dvalið hér á landi í sjö mánuði. Hann var hermaður í heimalandinu en segist hafa þurft að flýja eftir að hafa lent í átökum við sjálfstæðar hersveitir sem ógnuðu honum og fjölskyldu hans.

Raisan var viðstaddur þegar lögregla flutti tvo samlanda hans úr Laugarneskirkju sendi þá með flugvél til Noregs fyrir viku síðan. Hann segist vera í áfalli vegna meðferðarinnar sem þeir hlutu og óttast að hljóta sömu örlög. Hann hefur verið í hungurverkfalli í fimm daga vegna þessa.

„Hinir eru í fangelsi núna og þetta er erfitt. Mér leið mjög illa. Við erum manneskjur, ekki bara tölur. Fólk verður að skilja það að við erum ekki tölur heldur manneskjur.“

Raisan segir að hann verði sendur aftur til Írak verði honum vísað frá Íslandi til Noregs líkt og vinum hans í síðustu viku. Segist hann frekar vilja deyja á Íslandi en fara aftur til Írak þar sem hann sé í lífshættu.

„Ég vil ekki fara lifandi til Írak. Þegar ég er dauður geta þeir gert það við mig sem þeir vilja,“ segir hann.

Ljóst er að Raisan verður vísað úr landi á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar en hann segist ætla að halda hungurverkfallinu áfram þar til yfirvöld taka mál hans til efnislegrar umfjöllunar.

„Þetta er eina leiðin. Þetta er eina valið sem ég hef þessa stundina. Íslenskir prestar segja yfirvöldum að þau verði að taka betur á móti flóttamönnum. Við höfum ekki framið neina glæpi hérna. Það eina sem við höfum gert er að sækjast eftir friði, við sækjumst eftir réttlæti og öryggi, þess vegna erum við hér.“


Tengdar fréttir

Er Bagdad örugg borg, eða hvað um Írak?

Raisan Al-shimani er flóttamaður frá Írak og vinur minn. Eftirfarandi er saga hans, en hann bað mig um að skrifa um hana, þar sem hann kann ekki hvorki ensku né íslensku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×