Lífið

Best klæddu bræðurnir í Leifsstöð með húsvískt blóð í æðum

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Bræðurnir Aron og Arnar Unnarssynir hlakka til að fylgjast með strákunum okkar í Frakklandi.
Bræðurnir Aron og Arnar Unnarssynir hlakka til að fylgjast með strákunum okkar í Frakklandi. Vísir/Vilhelm
Öllum gestum í Flugstöð Leifs Eiríkssonar í nótt, aðfaranótt laugardags, var ljóst hvert bræðurnir Aron og Arnar Unnarssynir væru á leiðinni. Kópavogsbúarnir efnilegu voru klæddir í íslenska landsliðsbúninginn frá toppi til táar og klárir í Evrópumótið í knattspyrnu með foreldrum sínum. 

Reyndar ekki bara foreldrum sínum heldur hópi um sextíu manns sem ætlar að halda til í kringum Avignon og ferðast saman í leikina gegn Portúgal í Saint-Étienne og Ungverjalandi í Marseille. Öll eiga þau rætur að rekja til Húsavíkur, eins og fleiri knattspyrnumenn. Nægir að nefna feðgana Arnór og Eið Smára Guðjohnsen sem dæmi.

„Ég er mjög spenntur,“ seigr Aron sem æfir fótbolta með Breiðabliki og einnig handbolta með HK. Hann hefur góða trú á okkar mönnum.

„Ég er bara nokkuð bjartsýnn. Ég held að við náum að standa okkur vel,“ segir Aron sem hefur farið á nokkra landsleiki á Laugardalsvelli. 

Báðir númer tíu

Arnar sex ára, sem er skírður í höfuðið á afa sínum íþróttafréttamanninum Arnari Björnssyni, var þolinmóður í innritunarröðinni og eðlilega spenntur. Hann hefur einu sinni farið til útlanda áður, þá til Spánar, og klár í slaginn.

Arnar var klæddur í treyju númer tíu og var fljótur til svars aðspurður hvers vegna tíu hefði orðið fyrir valinu:

„Af því hann er númer tíu,“ segir Arnar og bendir á Aron stóra bróður. Hann æfir þó ekki fótbolta eins og stóri bróðir.

„Ég æfði þegar ég var lítill en ég hætti,“ segir Arnar og svarar neitandi spurður hvort hann ætli ekki að byrja að æfa aftur. Aron stóri bróðir var ekki alveg að kaupa svarið hjá þeim yngri og greinilegt að ekkert er meitlað í stein varðandi framtíð þess sex ára í fótboltanum. Hann virkaði klár í landsleik í Leifsstöð því auk gallans var hann einnig kominn í gervigrasskóna. Allt klárt.

Ekki missa af neinu sem gerist á EM í Frakklandi. Vísir er með hóp fjölmiðlamanna á mótinu sem færa ykkur allar nýjustu fréttirnar af strákunum okkar. Fylgdu okkur á FacebookTwitter og Snapchat (sport365).




Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.