„Auðvitað er þetta erfiður riðill og við byrjum á mjög erfiðum leik á móti Portúgal. Það er þannig séð engin pressa á okkur í fyrsta leik sem gæti nýst okkur. Það yrði algjör skandall ef Portúgal myndi tapa einhverjum stigum í þeim leik," segir Gylfi í viðtali sem Knattspyrnusamband Íslands setti inn á Youtube-rásina sína.
„Við þurfum að verjast mjög vel á móti Portúgal og gera sömu hluti og við gerðum í undankeppninni," segir Gylfi en hvað með alla þessa umræðu um hversu fámenn þjóð við erum?
„Það eru jafnmargir inn á vellinum þegar við spilum á þriðjudaginn en við þurfum að spila mjög vel, berjast fyrir hvern annan og vonast til að ná í stig," segir Gylfi.
Hvernig portúgölsku liði er Ísland að fara að mæta í fyrsta leiknum á Evrópumótinu í Frakklandi?
„Við erum að fara að mæta frábæru sóknarliði eins og sást í leiknum í gær á móti Eistlandi. Þeir eru með frábæra einstaklinga sem geta skorað mörk upp úr engu. Það er skemmtilegt að horfa á þá því þeir eru tæknilega mjög góðir og spila boltanum vel á milli sín," segir Gylfi en bætir við:
„Þeir eru nokkuð þéttir varnarlega síðan að þeir skiptu um þjálfara. Þetta verður því erfiður leikur en við höfum sýnt það á móti góðu liðunum að við erum meira en nógu góðir til að spila á móti þeim," segir Gylfi.
Það er hægt að sjá allt viðtalið við Gylfa í myndbandinu hér fyrir neðan.
9juni Gylfi Thor Sigurdsson EM 2016: https://t.co/dXg1QPVBDj frá @YouTube
— Knattspyrnusambandið (@footballiceland) June 9, 2016