Í fréttum Stöðvar 2 verður fjallað um hælisleitendur sem hafa ítrekað reynt að smygla sér um borð í fragtskip Eimskipa. Sýnt verður áður óbirt myndefni úr öryggismyndavélum sem sýnir þegar þeir fara inn á hafnarsvæði Eimskipa.
Um er að ræða fólk sem dvelst sem hælisleitendur hér en hefur engan áhuga á að vera hér og freistar þess að komast annað en hefur ekki gild vegabréf, fjármuni eða annað til þess að gera það löglega.
Í fréttatímanum greinum við einnig frá því að í undirbúningi er þingsályktun um rannsókn á aðkomu þýska bankans Hauck & Aufhäuser að einkavæðingu Búnaðarbankans. Mál er til skoðunar hjá stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis.
Einnig verður fjallað um Airbnb-væðinguna svokölluðu en félags- og húsnæðismálaráðherra telur að fleiri sveitarfélög muni banna útleigu gegnum Airbnb vegna ónæðis og þannig fylgja Mýrdalshreppi sem tók slíka ákvörðun fyrr á þessu ári.
Í fréttatímanum verður einnig rætt við fulltrúa Isavia í beinni útsendingu en röskun verður á 27 flugferðum til og frá landinu í kvöld og nótt vegna yfirvinnubanns flugumferðarstjóra.
Þetta og margt fleira í kvöldfréttum Stöðvar 2, klukkan 18:30 á samtengdum rásum Stöðvar 2 og Bylgjunnar og í beinni útsendingu á fréttavefnum Vísi.
Innlent