Læknafélag Reykjavíkur lýsir yfir miklum áhyggjum vegna frumvarps laga um breytingu á lögum um sjúkratryggingar.
Ályktun þess efnis var samþykkt á aðalfundi félagsins sem haldinn var í gær. Félagið telur að mikilvægt sé að vanda allar breytingar sem gerðar eru á heilbrigðiskerfinu og að tryggja verði áfram aðgengi viðkvæmra hópa að heilbrigðisþjónustu.
Í ályktuninni eru nefndir hópar á borð við börn, eldri borgara og þeirra sem kljást við langvarandi veikindi af ýmsum toga.
„Eins er mikilvægt að kostnaðarhlutdeild sjúklinga verði ekki svo há að hún hamli því að þessir hópar sæki sér þjónustu þegar þörf er á henni.“
Hér að neðan má sjá ályktunina í heild sinni:
Aðalfundur Læknafélags Reykjavíkur haldinn þann 24. maí 2016 lýsir yfir miklum áhyggjum vegna frumvarps til laga um breytingu á lögum um sjúkratryggingar, nr. 112/2008 með síðari breytingum (hámarksgreiðslur sjúkratryggðra og þjónustustýring), sem nú er til meðferðar hjá Alþingi. Aðalfundurinn ályktar að mikilvægt sé að vanda allar breytingar sem gerðar eru á heilbrigðiskerfinu. Tryggja ber áframhaldandi aðgengi viðkvæmra hópa svo sem barna, eldri borgara og þeirra sem kljást við langvarandi veikindi af ýmsum toga, að þeirri heilbrigðisþjónustu sem í boði er. Eins er mikilvægt að kostnaðarhlutdeild sjúklinga verði ekki svo há að hún hamli því að þessir hópar sæki sér þjónustu þegar þörf er á henni.
