Eitt af stærstu fréttunum eftir umspilsleiki Íslands og Króatíu voru níðsöngvar stuðningsmanna Króatíu í sigurgleði sinni eftir 2-0 sigur á Íslandi í seinni leiknum í Zagreb.
Króatar hafa ekki lært af hörðum viðbrögðum FIFA við hegðun stuðningsmannanna og áframhald á þessari hegðun hefur nú orsakað það að Króatar þurfa að spila tvo fyrstu heimaleiki sína í undankeppni HM 2018 fyrir luktum dyrum.
Króatíski landsliðsmaðurinn Josip Simunic fagnaði á mjög umdeildan hátt þegar króatíska landsliðið sló Ísland út en FIFA dæmdi hann í tíu leikja bann fyrir að nota fræga nasistakveðju til þess að gleðjast yfir sigrinum þegar hann fagnaði með hörðustu stuðningsmönnum króatíska liðsins.
Leikurinn á móti Íslandi varð því hans síðasti landsleikur og Josip Simunic fékk ekki að spila á HM í Brasilíu ekki frekar en íslenska landsliðið sem þurfti að horfa upp á hegðun hans eftir leikinn.
Hvorugur heimaleikjanna er þó á móti Íslandi því þetta eru heimaleikir Króatíu á móti Tyrklandi 5. september og á móti Finnlandi 9. október næstkomandi.
Auk bannsins þarf króatíska knattspyrnusambandið að greiða sekt upp á 150 þúsund svissneska franska sem eru um 19 milljónir íslenskra króna.
