Fótbolti

Suárez með fernu í stórsigri Börsunga | Sjáðu mörkin

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Barcelona endurheimti toppsætið í spænsku úrvalsdeildinni í fótbolta með 6-0 sigri á Sporting Gijón á Nývangi í kvöld.

Mörkin úr leiknum má sjá í spilaranum hér að ofan.

Eftir þrjú töp í röð eru Börsungar komnir á beinu brautina og hafa unnið síðustu tvo leiki sína með markatölunni 14-0.

Luis Suárez skoraði fernu í kvöld og líkt og í leiknum gegn Deportivo La Coruna á miðvikudaginn.

Tvö þessara marka komu af vítapunktinum en Barcelona fékk alls þrjár vítaspyrnur í leiknum. Seinni tvö vítin fengu spænsku meistararnir nánast gefins en dómari leiksins, Clos Gómez, átti ekki sinn besta dag.

Lionel Messi kom Barcelona í 1-0 á 12. mínútu og þannig var staðan í hálfleik og allt fram á 63. mínútu þegar Suárez bætti öðru marki við.

Hann skoraði svo úr tveimur vítaspyrnum og Neymar bætti fimmta markinu við úr víti á 85. mínútu. Það var svo Suárez sem átti síðasta orðið þegar hann skoraði sitt fjórða mark þremur mínútum síðar. Lokatölur 6-0, Barcelona í vil.

Með sigrinum komust Börsungar upp fyrir Atlético Madrid sem skaust á toppinn með 1-0 sigri á Malaga fyrr í kvöld.

Barcelona og Atlético Madrid eru með jafn mörg stig (82) en Katalóníuliðið er fyrir ofan á betri árangri í innbyrðis viðureignum liðanna. Real Madrid er svo með 81 stig í 3. sæti. Öll toppliðin eiga þrjá leiki eftir.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×