Franska dagblaðið Liberation fullyrðir í dag að hryðjuverkamennirnir sem stóðu fyrir árásunum í París og Brussel hafi haft í hyggju að ráðast á Evrópumeistaramótið í knattspyrnu.
EM fer fram í tíu borgum í Frakklandi næsta sumar, frá 10. júní til 10. júlí, og er Ísland meðal þátttökuþjóða.
Mohamed Abrini, einn hryðjuverkamannanna sem er grunaður um að hafa staðið að voðaverkunum í París og Brussel, var handtekinn í Belgíu á föstudag. Samkvæmt frétt dagblaðsins mun hann hafa greint frá þessum áætlunum í yfirheyrslum.
„Það eru varla nýjar fréttir að hryðjuverkamenn hafi í hyggju að gera árás á meðan EM stendur,“ sagði ónefndur lögreglumaður í samtali við áðurnefnt dagblað.
„Öryggissveitirnar eru sífellt að kanna alla árásarmöguleika hryðjuverkamanna og hvernig á að bregðast við þeim.“
130 fórust í hryðjuverkunum í París í nóvember og 32 í Brussel fyrr á þessu ári. Hryðjuverkasamtökin ISIS lýstu ábyrgð á báðum árásunum.
