Irina Sazonova skrifaði í nótt nýjan kafla í sögu íslenskra fimleika þegar hún varð fyrsta íslenskan konan til að öðlast þátttökurétt á Ólympíuleikum.
Irina Sazonova tryggði sér sætið á Ólympíuleikunum í Ríó með góðri frammistöðu sinni í undankeppninni sem fór einnig fram í Ríó.
Irina var í fjórða keppnishóp sem var sá síðasti í keppninni í nótt. Í hennar hóp voru stúlkur frá Kanada, Jamaíka, Slóveníu og Írlandi.
Irina fékk 52.931 stig og hafnaði í 38. til 39. sæti ásamt Toni-Ann Williams frá Jamaíku. Það skilaði henni farseðlinum á Ólympíuleikana í ágúst.
Irina Sazonova fékk hæstu einkunnina fyrir stökk (13.866) en þá næsthæstu fyrir æfingar á tvíslá (13.533). Hún fékk síðan 12.866 fyrir æfingar á jafnvægisslá og 12.666 fyrir gólfæfingar. Hér má sjá formlegan lista yfir þær sem hafa tryggt sér sæti á ÓL í Ríó.
Irina Sazonova hefur verið á Íslandi í þrjú ár en hún keppti áður fyrir Rússa. Hún varð á dögunum Íslandsmeistari í fjölþraut í fyrsta sinn og vann líka allt í boði með Ármanni á þessu tímabili.
Hún verður eins og áður sagði fyrsta íslenska konan til þess að keppa á Ólympíuleikum og hún er einnig fyrsti íslenski fimleikmaðurinn til að keppa á leikunum síðan 2004. Rúnar Alexandersson keppti á þremur Ólympíuleikum, í Atlanta 1996, í Sydney 2000 og í Aþenu 2004.
Nú hafa sex íþróttamenn tryggt sér þátttökurétt á Ólympíuleikunum í Ríó en það eru frjálsíþróttakonurnar Ásdís Hjálmsdóttir og Aníta Hinriksdóttir og sundólkið Anton Sveinn McKee, Eygló Ósk Gústafsdóttir og Hrafnhildur Lúthersdóttir.

