Körfubolti

Odom mætti á völlinn í gær

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Odom, með sólgleraugun, var hress og kátur í Staples Center í gær.
Odom, með sólgleraugun, var hress og kátur í Staples Center í gær. vísir/getty
„Þetta er kraftaverk,“ sagði Kobe Bryant er hann sá vin sinn, Lamar Odom, á leik Lakers í gær en Odom má þakka fyrir að vera á lífi í dag.

Síðastliðinn október fannst Odom meðvitundarlaus á vændishúsi rétt fyrir utan Las Vegas. Hann var þá nánast búinn að ganga frá sjálfum sér með alls konar ólifnaði.

Lengi vel var talið að Odom myndi deyja eða væri orðinn heiladauður. Hann virðist þó hafa náð ótrúlegum bata.

„Þetta var eins og í gamla daga. Við spjölluðum fyrir og eftir leikinn. Það var frábært að tala um körfubolta við hann,“ sagði Kobe einnig en hann trúir því varla hversu góðum bata Odom hefur náð.

Þetta var fyrsti leikurinn sem Odom fer að sjá síðan hann endaði á spítalanum. Hann leit vel út. Brosti mikið og spjallaði við fólk allt í kringum hann. Það lítur því út fyrir að bjartari tímar séu í vændum hjá Odom.

Odom spilaði með Lakers frá 2004 til 2011 og vann NBA-titilinn tvisvar með liðinu.

Odom leit vel út og það gladdi marga að sjá.vísir/getty
NBA

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×