Fótbolti

Bronsið á Algarve skilaði íslensku stelpunum engu á FIFA-listanum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Margrét Lára Viðarsdóttir, fyrirliði íslenska kvennalandsliðsins.
Margrét Lára Viðarsdóttir, fyrirliði íslenska kvennalandsliðsins. Vísir/Anton
Íslenska kvennalandsliðið í fótbolta er í 20. sæti á nýjum styrkleikalista Alþjóðaknattspyrnusambandsins, FIFA,  sem var gefinn út í dag.

Íslenska liðið fer niður um eitt sæti og missir því Sviss upp fyrir sig. Ísland lækkaði um eitt sæti á listanum í september síðastliðnum en var í 18. sæti á listanum sem var gefin út í júlí 2015.  

Íslensku stelpurnar náðu þriðja sætinu í Algarve-bikarnum eftir sigur á Nýja Sjálandi í vítakeppni í bronsleiknum. Það dugði þeim þó ekki til að bæta stöðu sína á listanum heldur þvert á móti.

Ísland vann Belgíu og Danmörk á Algarve-mótinu, Belgar eru áfram í 28. sæti en Danir detta niður um þrjú sæti niður í átjánda sæti listans.

Eina tap Íslands var á móti Kanada sem hækkar sig um eitt sæti á listanum og er nú í 10. sætinu en þær kanadísku unnu 2-1 sigur á Brasilíu í úrslitaleiknum.

Bandaríkin, Þýskaland og Frakkland eru áfram í þremur efstu sætunum en ensku stelpurnar hækka sig um eitt sæti og er núna í fjórða sætinu. England hefur aldrei verið ofar á listanum.

Ástralía hækkar sig um fjögur sæti og er nú komið upp fyrir Svía og í fimmta sæti listans en Svíþjóð er í sjötta sætinu. Japan dettur niður um þrjú sæti í sæti númer sjö.


Tengdar fréttir

Væri draumur að mæta Brasilíu

Hólmfríður Magnúsdóttir er ein af sex markaskorurum og 21 byrjunarliðsmanni íslenska kvennalandsliðsins í fyrstu tveimur leikjum Algarve-mótsins. Jafntefli á móti Kanada í dag kemur liðinu í úrslitaleikinn.

Ný kynslóð verður tilbúin

Ísland vann bronsverðlaun á sterku Algarve-móti í Portúgal þetta árið og er Freyr Alexandersson ánægður með útkomuna. Hann segir liðið á góðum stað og vel í stakk búið að tryggja sér sæti á EM 2017 í Hollandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×