Hollendingar unnu endurkomu sigur á Englendingum í vináttulandsleik á Wembley í kvöld en Þjóðverjar rifu sig upp og unnu sannfærandi sigur á Ítölum.
Jamie Vardy kom Englandi í 1-0 á móti Hollandi strax á 41. mínútu en Vincent Janssen jafnaði úr víti á 50. mínútu og Luciano Narsingh skoraði sigurmarkið á 77. mínútu. Þetta var aðeins annað tap Englendinga í síðustu 19 leikjum.
Englendingar voru mjög ósáttir með að sigurmarkið hafi fengið að standa en þeir vildu meina að Vincent Janssen hefði brotið á Phil Jagielka í aðdraganda marksins.
Þjóðverjar töpuðu fyrir Englendingum fyrir páska en svöruðu því með 4-1 sigri á Ítölum í kvöld.
Toni Kroos og Mario Götze komu Þjóðverjum í 2-0 í fyrri hálfleik og Jonas Hector og Mesut Özil voru búnir að koma þýska liðinu í 4-0 eftir 75 mínútna leik. Stephan El Shaarawy minnkaði síðan muninn sjö mínútum fyrir leikslok.
Frakkar unnu 4-2 sigur á Rússum þar sem spútnikstjörnur ensku úrvalsdeildarinnar, N'Golo Kanté hjá Leicester og Dimitri Payet hjá West Ham, komust báðir á blað. Hin mörkin skoruðu André-Pierre Gignac og Kingsley Coman.
Matt Ritchie tryggði Skotum 1-0 sigur á Dönum en Danir náður ekki að fylgja eftir sigrinum á Íslendingum.
