Erlent

Flóttamenn flykktust yfir landamæri Makedóníu

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Flóttamaður heldur á barni yfir á áður en komið var inn í Makedóníu.
Flóttamaður heldur á barni yfir á áður en komið var inn í Makedóníu. Nordicphotos/Getty
Um það bil þúsund flóttamenn streymdu inn í Makedóníu eftir að hafa vaðið yfir stórfljót og fundið sér leið fram hjá girðingunni á landamærum Makedóníu og Grikklands.

Áin sem um ræður er stór og strengdu flóttamennirnir reipi yfir hana til að styðja sig við er vaðið var yfir, sumir hverjir með börn í höndunum eða á bakinu.

Þegar komið var til Makedóníu tóku hermenn á móti þeim og smöluðu upp í herbíla. Ekki er vitað hvert farið var með fólkið. Talskona lögreglunnar á staðnum sagði hins vegar að verið væri að gera ráðstafanir til að flytja fólkið aftur til Grikklands. Þá sagði hún einnig að lögregla og her hefðu skerpt á öryggisgæslu við landamærin.

Fólkið hafði áður aðsetur í flóttamannabúðum í gríska bænum Idomeni ásamt 14.000 öðrum flóttamönnum, flestum frá Sýrlandi og Írak, en aðstæður þar hafa versnað undanfarið sökum rigningar. Mikið hefur fjölgað í búðunum frá því Makedóníumenn lokuðu landamærum sínum með girðingu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×